Arion banki hefur tilkynnt um hækkun á inn- og útlánavöxtum en breytingarnar taka gildi á morgun. Óverðtryggðir vextir á íbúðalánum hækka en vextir verðtryggðra íbúðalána haldast óbreyttir í 2,54%. Breytingin kemur í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans fyrir viku síðan en meginvextir SÍ hækkuðu úr 1,0% í 1,25%.

Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka um 0,20 prósentustig og verða 3,74%. Hækkunin nemur 0,14 prósentustigum á föstum óverðtryggðum íbúðalánavöxtum til þriggja ára og verða þeir 4,49%.

Almennir óverðtryggðir kjörvextir Arion hækka um 0,2% en verðtryggðir kjörvextir haldast óbreyttir. Kjörvextir bílalána hækka um 0,20 prósentustig og verða 5,30%. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25 prósentustig.

Fram kemur að breytilegir óverðtryggðir innlánavextir „hækka ýmist um allt að 0,25 prósentustig eða haldast óbreyttir“ en tekið er fram að að vextir á veltureikningum haldist óbreyttir

Landsbankinn tilkynnti á þriðjudaginn um hækkun vaxta. Vextir á óverðtryggðum íbúðalánum Landsbankans hækkuðu í gær um 0,20 prósentustig og eru nú 3,65%. Óverðtryggðir fastir vextir til þriggja ára stóðu óbreyttir í 4,2%-4,4%, en kjörin fara eftir veðhlutfalli.

Íslandsbanki hefur ekki enn tilkynnt um vaxtabreytingar frá því að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti.