Arion banki hefur hækkað inn- og útlánavexti í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands. Vaxtahækkanirnar munu taka gildi frá og með deginum í dag, en Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 2% upp í 2,75% fyrr í mánuðinum.

Bankinn hefur hækkað óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti um 0,5 prósentustig í 4,79%. Fastir óverðtryggðir vextir til 3 ára voru hækkaðir um 0,45 prósentustig og verða 5,69%.

Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,35 prósentustig og verða 1,89%. Jafnframt lækka verðtryggðir fastir 5 ára íbúðalánavextir um 0,75 prósentustig og verða 1,49%.

Bílalánavextir og kjörvextir fyrirtækja hækka um 0,5 prósentustig, og yfirdráttarvextir um 0,75 prósentur. Þá hækka innlánsvextir um allt að 0,75 prósentur á óverðtryggðum sparnaðarreikningum.

Landsbankinn var fyrstur til að hækka vexti í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar Seðlabankans, en bankinn hækkaði íbúðalánavexti í síðustu viku, eins og Viðskiptablaðið greindi frá.