Arion banki hækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar eða um 1,6% í 461 milljón króna veltu í Kauphöllinni í dag. Gengi bankans hækkaði strax í kjölfarið af tilkynningu bankans um sex milljarða króna hagnað á fyrsta ársfjórðungi miðað við drög að uppgjöri.

Framan af degi voru nær öll félög rauð, sem kann að stafa af auknum fjölda Covid smita innanlands. Lokagengi tólf af átján félögum Kauphallarinnar lækkaði í dag en þrátt fyrir það hækkaði úrvalsvísitalan um 0,2%.

Icelandair lækkaði mest allra félaga eða um 1,7% í 25 milljóna króna veltu og stendur gengi flugfélagsins nú í 1,43 krónum á hlut. Reitir lækkuðu næst mest eða um 1,6% og Eik lækkaði sömuleiðis um 1,5%. Reginn, þriðja fasteignafélagið í Kauphöllinni, hækkaði hins vegar um 0,2% í dag.

Næst mesta veltan var með bréf Kviku banka sem stóðu óbreytt í 21,5 krónum á hlut í 429 milljóna króna veltu. Tilkynnt var í dag um nýja stjórn fyrir sameinaða félags Kviku og TM. Þriðja mesta veltan, eða um 328 milljónir króna, var með hlutabréf Marel sem lækkaði um 0,1%.