Arion banki segir að honum hafi ekki borist tilboð á hærra gengi en hann seldi á.

Tilefnið er frétt sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem sagt var frá því að ótilgreindur lífeyrissjóður vildi kaupa bréf í símanum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins átti ótilgreindur lífeyrissjóður að hafa boðið í hluti símans á gengi sem nam 3,45 krónum á hlut þremum mánuðum fyrir útboð símans. Fjallað var um málið á vb.is nú í morgun.

Arion banki segir í tilkynningu frá bankanum:

„Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins í dag vill Arion banki árétta að bankanum barst ekki tilboð á genginu 3,45 í hlutabréf í Símanum og að á engum tímapunkti bárust bankanum tilboð sem voru hærri en bankinn seldi á.“

Athugasemd: Upphaflega var greint frá því að Arion banka hefði borist tilboð frá ótilgreindum lífeyrissjóð. Rétt er að tilboð bárust fjárfestum í gegnum fjármálafyrirtæki sem hafði milligöngu um viðskiptin. Arion banki hefur hafnað því að þeim hafi borist kauptilboð á hærra gengi.