Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2017 nam 14,4 milljörðum króna samanborið við 21,7 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,6% en var 10,5% á árinu 2016. Hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi nam 4.066 milljónum króna en á sama tíma árið 2016 nam hagnaðurinn 4.475 milljónum. Fór Arðsemi eigin fjár á tímabilinu úr 8,6% í 7,3% á milli ára.

Þýðir þetta að hagnaður bankans dróst saman um 33,7% á milli ára fyrir árin í heild, en um rúmlega 9,1% ef litið er til 4. ársfjórðungs árið 2017 samanborið við sama tíma 2016.

Heildareignir jukust um 111 milljarða

Heildareignir námu 1.147,8 milljörðum króna í árslok samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 225,6 milljörðum króna, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016.

Eiginfjárhlutfall bankans var 24,0% í árslok en var 26,8% í árslok 2016. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 lækkaði og nam 23,6% samanborið við 26,1% í árslok 2016. Lækkun frá fyrra ári kemur einkum til vegna 25 milljarða króna arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum, sem samþykkt var á hluthafafundi 12. febrúar sl. og framkvæmd verður á næstu vikum.

Næsta skref í átt að skráningu tekin

Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka segir efnahag bankans sterkann og að mikil áhersla hafi verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta og afborganna skuldabréfa sem eru á gjalddaga snemma árs 2018.

„Þetta gerir bankanum kleift að ráðast í sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 25 milljarðar króna sem ákveðin var á hluthafafundi 12. febrúar síðastliðinn,“ segir Höskuldur meðal annars í fréttatilkynningu og segir líkur á að næstu skref í skráningu bankans á markað verði tekin á næstu vikum og mánuðum.

„Bankinn hefur sett sér það markmið að lánavöxtur sé almennt umfram vöxt í efnahagslífinu og sú varð raunin á árinu 2017 en lán til viðskiptavina jukust um rúm 7% á árinu. Lán til fyrirtækja jukust um tæp 7% en lán til einstaklinga um rúm 8%. Vöxtur í lánum til einstaklinga er nær eingöngu í íbúðalánum, þrátt fyrir harða samkeppni á þeim markaði frá lífeyrissjóðum. Þar skiptir miklu sú skjóta og þægilega þjónusta sem viðskiptavinir fá er þeir sækja um íbúðalán hjá bankanum.

Erfiðleikar og gjaldþrot kísilverksmiðju United Silicon setti mark sitt á afkomu ársins en niðurfærslur Arion banka á lánum og fjárfestingu í félaginu námu um 4 milljörðum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa.“