Arion banki hagnaðist um 22,6 milljarða króna eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankans 10,1 milljarði.

Hagnaður bankans á þriðja ársfjórðungi nam 5,2 milljörðum króna, en var 4,2 milljarðar í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri bankans sem var birt nú síðdegis.

Arðsemi eigin fjár Arion var 19,9% nú samanborið við 10% á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 og heildareignir bankans námu 942,2 milljörðum króna.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri segir uppgjörið sterkt og afkomu bankans þessa fyrstu níu mánuði ársins góða. Hann segir þó áfram vera áskoranir á kostnaðarhliðinni hjá bankanum. " Eiginfjárhlutfall bankans er áfram sterkt sem við teljum afar mikilvægt því enn eru óvissuþættir í okkar starfsumhverfi. Við náum árangri í að lækka hlutfall vandræðalána og sjáum fram á enn frekari lækkun á árinu. Víða erlendis er hlutfall vandræðalána að hækka en þróunin hér á landi á undanförnum árum hefur verið jákvæð og helst í hendur við lækkandi skuldsetningu heimila og fyrirtækja, en skuldsetning fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur ekki verið lægri síðan síðla árs 2004“ segir Höskuldur í tilkynningu frá bankanum.