Arion banki hagnaðist um 49,7 milljarða íslenskra króna á árinu 2015. Afkoma bankans var birt í dag, en þar segir að afkoma ársins hafi verið afar góð en markast af óreglulegum liðum.

Þessi mikli hagnaður er skýrður að mestu leyti vegna þess að bankinn seldi hlut sinn í heilum fimm fyrirtækjum - Reitum fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd.

Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok ársins 2015 var 24,2% en var 26,3% í árslok 2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar króna.

Rekstrarhagnaður félagsins var þá 86,5 milljarðar íslenskra króna, en þar af voru hreinar vaxtatekjur um 26 milljarðar meðan þóknana- og fjármunatekjur voru samanlagt 26 milljarðar króna.Hlutdeild bankans í hagnaði hlutdeildarfélaga nam þá 29 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014. Hagnaður reglulegrar starfsemi jókst því um heil 32% milli ára. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4% á árinu samanborið við 10,7% árið 2014 og dregst því saman um 0,3 prósentustig.

Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20% milli ára.

Arion banki greiddi tæpa 6 milljarða króna í skatt á árinu. 3,1 milljarður var greiddur í tekjuskatt og 2,8 milljarða í bankaskatt.