Arion banki hagnaðist um ríflega 6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra nam tap bankans tæplega 2,2 milljörðum króna. Arðsemi eiginfjár var 12,5% á fjórðungnum. Arðsemi eiginfjár miðað við 17% hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1, var 16,0% á fjórðungnum. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu bankans.

Heildareignir námu 1.181 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 1.173 milljarða króna í árslok 2020. Lán til viðskiptavina hækkuðu um 1,7% frá áramótum, aðallega húsnæðislán en lausafé lækkaði lítillega, m.a. vegna endurkaupa á hlutabréfum bankans og arðgreiðslu.

Á skuldahliðinni jukust innlán um 4,2% á fjórðungnum. Heildar eigið fé nam 189 milljörðum króna í lok tímabilsins; kom afkoma tímabilsins til hækkunar en til lækkunar komu 14,8 milljarðar króna vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans.

„Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 26,9% í lok mars og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 22,4% að teknu tilliti til arðgreiðslu sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans og útistandandi kaupa eigin bréfa að fjárhæð 3 milljarða króna, samanborið við 27,0% og 22,3% um áramót. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 26,5% í lok mars og hlutfall eiginfjárþáttar 1 22,0%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands,“ segir í tilkynningu bankans.

„Við erum ánægð með rekstur bankans á fyrsta ársfjórðungi. Öll helstu fjárhagsmarkmið náðust og það er okkar skoðun að vel hafi tekist að stýra bankanum í gegnum þær krefjandi aðstæður sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér. Hreinar tekjur af kjarnastarfsemi, sem eru vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi, hækka um rúm 4% á milli ára. Jafnframt náum við enn frekari árangri við að draga úr kostnaði. Umtalsverðar og jákvæðar breytingar urðu á milli ára hvað varðar virðisbreytingu útlána og fjármunatekjur enda einkenndist uppgjör fyrsta ársfjórðung síðasta árs af gríðarlegri óvissu. Þó vissulega sé enn margt óljóst varðandi leiðina út úr heimsfaraldrinum þá er ástæða til aukinnar bjartsýni nú þegar bólusetningar ganga vel, bæði hér á landi og í mörgum þeirra landa sem skipta ferðaþjónustuna miklu. Það er ánægjulegt að sjá að margir okkar viðskiptavina eru farnir að búa sig undir betri tíma.

Á undanförnum árum höfum við lagt höfuðáherslu á að gera þjónustu bankans þægilegri fyrir viðskiptavini. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða aðgengilegar stafrænar lausnir sem gera flókna hluti einfalda. Ein af okkar nýjustu lausnum gerir lífeyrismál fólks aðgengileg í Arion appinu. Lausnin fékk nýverið verðlaun á íslensku vefverðlaununum, árlegum verðlaunum Samtaka vefiðnaðarins, fyrir að draga saman á notendavænan hátt flóknar upplýsingar frá mörgum stöðum. Það er ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu því við teljum mjög mikilvægt að færa lífeyrismálin nær fólki - bæði ungu fólki sem er að hefja sinn lífeyrissparnað og þeim eldri sem nálgast eftirlaunaaldur. Það er fátt mikilvægara í fjármálum fólks en að skilja og þekkja sín lífeyrismál.

Það hefur verið allnokkur breyting á hluthafahópi bankans það sem af er ári. Stórir erlendir hluthafar sem tóku þátt í hlutafjárútboði bankans fyrir tæpum þremur árum hafa farið úr hluthafahópnum og í þeirra stað hafa komið íslenskir fjárfestar. Hluthafar bankans eru í dag rúmlega átta þúsund og eiga íslenskir hluthafar um 90% hlutafjár. Lífeyrissjóðir eiga nær helmings hlut í bankanum og eru aðrir innlendir aðilar eigendur að um 40% hlutafjár. Það er athyglisvert að þótt hlutafjáreign erlendra aðila hafi lækkað í um 10% hlut í bankanum þá eru erlendir hluthafar fimm þúsund talsins og þeir eru því í fjölda talið meirihluti hluthafa bankans," er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka í afkomutilkynningunni.