Á þriðja ársfjórðungi nam hagnaður Arin banka 7,4 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 7,1 milljarði.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Arion banka 17,3 milljörðum króna sem er nálega þriðjungs minnkun hagnaðar frá 25,4 milljarða króna hagnaði á sama tímabili árið á undan.

Arðsemi eigin fjár lækkaði um 8,6 prósentustig

„Arðsemi eigin fjár var 11,2% samanborið við 19,8% fyrir sama tímabil árið 2015. Reiknaður hagnaður af reglulegri starfsemi nam 5,7 milljörðum króna samanborið við 11,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 3,7% samanborið við 9,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2015,“ segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

„Heildareignir námu 1.038,5 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.011,0 milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna í lok september, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015. Efnahagur bankans er sterkur og lögð hefur verið áhersla á trygga lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshafta.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok september var 26,1% en var 24,2% í árslok 2015. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 25,5% samanborið við 23,4% í árslok 2015.“

Bankastjórinn segir afkomuna viðunandi

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir afkomuna á tímabilinu vera viðunandi. „Grunnrekstur bankans hefur verið aðeins undir væntingum enda hafa ytri aðstæður sumpart verið óhagstæðar. Þróun á hlutabréfamarkaði á tímabilinu hefur neikvæð áhrif, en bankinn er enn með stöður í skráðum félögum,“ segir Höskuldur.

„Grunnrekstur bankans er engu að síður traustur og eiginfjárstaða bankans heldur áfram að styrkjast. Alþjóðlega lánshæfismats fyrirtækið Standard & Poor´s horfði til sterkrar eiginfjárstöðu bankans, bætts aðgengis að erlendum lánsfjármörkuðum sem og sterkrar stöðu íslensks efnahagslífs þegar fyrirtækið hækkaði nýlega lánshæfismat Arion banka í BBB/A-2 með jákvæðum horfum.“

Vaxtaálag á erlendum útgáfum lækkað

Höskuldur segir að vaxtaálag á erlendum útgáfum bankans á eftirmarkaði hafi lækkað mikið sem beri vott um þá eftirspurn sem sé til staðar á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum eftir skuldabréfum bankans.

„Í lok september gengu kaup Arion banka á tryggingafélaginu Verði í gegn og bætast þar með skaðatryggingar í vöruframboð bankans, en líftryggingar hafa verið hluti af vöruframboðinu um árabil,“ segir Höskuldur.

„Vörður hefur þar með bæst í hóp dótturfélaga Arion banka og mun starfa náið með bankanum þegar kemur að sölu trygginga. Viðskiptavinir beggja munu njóta góðs af.“