Arion banki hagnaðist um 14,9 milljarða króna á fyrsta árfsjórðungi þessa árs samanborið við 2,9 milljaðra á sama tímabili 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að afkoman markist mjög af óreglulegum liðum. Þar hafa mest áhrif einskiptisatburðir eins og skráning og sala bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðlega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber.

Arðsemi eigin fjár var 35,1% samanborið við 7,8% á sama tímabili árið 2014. Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam 4,0 milljörðum króna samanborið við 1,7 milljarða á sama tímabili 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 9,8% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 4,6% á sama tímabili 2014. Heildareignir námu 1.004,3 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014. Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 23,9% en var 26,3% í árslok 2014. Hlutfall eiginfjárþáttar A nam 21,2% samanborið við 21,8% í lok árs 2014.

„Þetta er vissulega góð og sterk byrjun á árinu en það er ljóst að óreglulegir liðir munu ekki hafa þetta mikil  áhrif á afkomu bankans það sem eftir lifir árs,“ er haft eftir Höskuldi Ólafssyni bankastjóra Arion banka í tilkynningunni.