Arion banki hagnaðist um tæplega 25,4 milljarða króna árið 2022 og arðsemi eigin fjár bankans var 13,7% á árinu. Til samanburðar hagnaðist bankinn um 28,6 milljarða árið 2021. Stjórn Arion leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 12,5 milljarðar króna, að því er kemur fram í afkomutilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur Arion jukust um 25,6% á milli ára og námu 40,3 milljörðum. Hreinar þóknanatekjur Arion jukust um 9,5% og námu 16,1 milljarði.

Aðrar hreinar rekstrartekjur drógust hins vegar saman úr 11,5 milljörðum í 856 milljónir á milli ára sem má einkum rekja til þess að hreinar fjármagnstekjur voru neikvæðar um 3 milljarða í fyrra en jákvæðar um 6,2 milljarða árið 2021.

Rekstrartekjur drógust saman um 1,8% og námu 57,2 milljörðum. Rekstrargjöld jukust um 4% og námu 26,9 milljörðum. Rekstrarhagnaður Arion (EBIT) nam 28,7 milljörðum í fyrra samanborið við 34,0 milljarða árið 2021.

Heildareignir Arion námu 1.470 milljörðum króna í lok síðasta árs. Heildar eigið fé nam 188 milljörðum.

„Starfsemi Arion banka gekk vel á árinu þrátt fyrir að aðstæður hafi um margt verið krefjandi. Efnahagsleg áhrif stríðsins í Úkraínu eru margþætt og finnast víða. Orkuverð hefur hækkað og verðbólga náð sjaldséðum hæðum í mörgum af okkar nágrannalöndum,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.

„Ísland er vissulega fjarri stríðsátökunum en við höfum ekki farið varhluta af þeirri óvissu sem þeim fylgir. Engu að síður var þróttur í íslensku efnahagslífi á árinu og útlit fyrir að hagvöxtur verði um 6-7%, meðal annars í krafti þess að við erum að miklu leyti sjálfbær í orkumálum með okkar grænu vatnsorku og jarðvarma.

Arðsemi Arion banka á árinu 2022 var góð og yfir arðsemismarkmiði okkar. Vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi, sem bankinn hefur skilgreint sem sínar kjarnatekjur, hækkuðu um 17,5%, en krefjandi markaðsaðstæður leiddu til þess að fjármagnstekjur bankans voru neikvæðar um þrjá milljarða. Staða bankans er áfram mjög sterk og eiginfjár- og lausafjárhlutföll vel yfir markmiðum bankans.“