Arion banki lítur svo á að bankinn hefði tapað um fimm milljörðum króna hefði hann ekki gengið að hugmynd alþjóðlega bankarisans Fortis um endurskipulagningu Samskipa.

Sú hugmynd, sem nú hefur verið hrint í framkvæmd, gekk út á að SMT (Samskip Management Team) Partners, félag í eigu Ólafs Ólafssonar og stjórnenda Samskipa, eignaðist tæplega 90 prósentna hlut í félaginu gegn því að leggja því til nokkur hundruð milljónir króna í aukið hlutafé. Kjalar, annað félag í eigu Ólafs Ólafssonar, var áður aðaleigandi Samskipa.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom þetta fram á fundi viðskiptanefndar fyrr í mánuðinum þegar Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion, kom fyrir nefndina. Heimildir herma að Finnur hafi þar sagt að ef ekki hefði verið gengið að hugmyndum Fortis, sem var stærsti einstaki kröfuhafi Samskipa, hefðu Samskip á Íslandi farið í þrot. Það hefði Arion ekki viljað, enda einkabanki sem yrði að gæta arðsemi.