*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 8. febrúar 2021 19:02

Arion í 15 milljarða endurkaup

Minni óvissa og aukinn styrkur bankans ástæður heimildarinnar. Stjórn tekur endanlega ákvörðun á miðvikudag.

Ritstjórn
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Eyþór Árnason

Fjármálaeftirlitið hefur veitt Arion banka heimild til að kaupa 150 milljónir eigin bréfa – ríflega 15 milljarða króna á gengi dagsins í dag – sem nemur 8,7% af útgefnu hlutafé bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Aðalfundur bankans sem haldinn var um miðjan mars síðastliðinn veitti stjórn hans endurnýjaða heimild til endurkaupa á allt að tíund útgefins hlutafjár bankans, í ljósi vel heppnaðs 13 milljarða skuldabréfaútboðs mánuðinn áður, og sterkrar eiginfjárstöðu.

Heimsfaraldurinn, sem þá var að hefjast af alvöru, varð hinsvegar til þess að arðgreiðslur og endurkaup voru sett á bið samkvæmt tilmælum Seðlabankans, í ljósi mikillar óvissu.

Óvissan er í tilkynningunni sögð hafa minnkað verulega á síðustu mánuðum, á sama tíma og styrkur bankans hafi aukist. Endanleg ákvörðun um endurkaup er í höndum stjórnar, en upplýst verður um ákvörðun hennar samhliað birtingu ársuppgjörs bankans næstkomandi miðvikudag.

Metvelta var með hlutabréf bankans í dag, og bréf hans hækkuðu um 2,7% í viðskiptum dagsins.