Arion banki hefur keypt 1,2 milljónir hluta í fjarskiptafélaginu Sýn og á nú 15,5 milljón hluta eða 5,234% í félaginu. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar.

Ekki kemur fram á hvaða gengi kaupin áttu sér stað en ef miðað er við gengi Sýnar við lok Kauphallar í gær námu viðskiptin 29,1 milljón króna. Markaðsvirði félagsins er um 7,2 milljarðar króna.

Bréf Sýnar hafa lækkað um ríflega 30% það sem af er ári en þau stóðu í 35 krónum hvert í upphafi árs. Hápunkti náðu þau í mars árið 2018 þegar hvert bréf kostaði 72,8 krónur.