Arion banki hf. hefur samþykkt tilboð Kaupskila ehf., dótturfélags Kaupþings ehf., um að bankinn kaupi af Kaupskilum 9,5% af útgefnu hlutafé í Arion banka. Er greiðsluupphæðin, 17,1 milljarður dregin frá 25 milljarða arðgreiðslu bankans til eigenda sinna sem samþykkt var á hluthafafundi 12. febrúar síðastliðinn.

Þar var ákveðið að taka upp í samþykktir bankans tímabundna heimild stjórnar bankans til að kaupa til baka hlutabréf útgefin af bankanum. Fyrir viðskiptin, og eftir söluna á 5,34% hlut Kaupskila til innlendra og erlendra sjóða sem Viðskiptablaðið sagði frá í gær, átti Kaupskil um 52% hlutafjár í bankanum.

Kemur tilkynningin daginn eftir að ljós kom að hagnaður bankans dróst saman um þriðjung milli ára, en fyrirhugað er að uppgjör fram fari þann 21. febrúar 2018. Tilboð Kaupskila til Arion banka er háð því skilyrði að uppgjör hafi átt sér stað á milli Kaupskila og íslenska ríkisins varðandi nýtingu Kaupskila á kauprétti 13% hlutar íslenska ríkisins í Arion banka.

Hafi framangreindu skilyrði ekki verið fullnægt á uppgjörsdegi, getur Kaupskil frestað uppgjörsdeginum um allt að tíu daga. Komi til þess að uppgjörsdeginum sé frestað hækkar kaupverð hinna seldu hluta í samræmi við skilmála samnings Kaupskila og íslenska ríkisins. Kaupréttur Kaupskila byggir á samningi við íslenska ríkið frá 3. september 2009.

Arion banki greiðir 90,087 krónur á hlut sem er sama verð og Kaupskil greiðir íslenska ríkinu við nýtingu kaupréttarins. Heildarkaupverð er rúmlega 17,1 milljarður króna og kemur sú upphæð til frádráttar arðgreiðslu sem samþykkt var á hluthafafundinum 12. febrúar og getur að hámarki verið 25 milljarðar króna.

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: