Arion banki hefur fest kaup á 51% hlut í fjártæknifyrirtækinu Leiguskjól ásamt því að gera samstarfssamning við fyrirtækið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Samstarfssamningurinn felur m.a. í sér að Leiguskjól mun bjóða viðskiptavinum sínum húsaleiguábyrgðir frá bankanum í gegnum vef sinn, leiguskjol.is.

Munu ábyrgðirnar koma í stað hefðbundinna trygginga sem leigjendur þurfa að leggja fram og auðvelda þannig mörgum aðgengi að leigumarkaðnum auk þess sem lagaleg staða bæði leigutaka og leigusala verður tryggari.

Leiguskjól tók þátt í Startup Reykjavík viðskiptahraðli Arion banka árið 2018. Fjárfesting Arion banka og samstarfssamningurinn við Leiguskjól eru liður í áherslu bankans á aukið samstarf við fjártæknifélög.

Í tilkynningunni segir að markmið bankans er að nýta drifkraft frumkvöðla til að hraða þróun stafrænnar fjármálaþjónustu og auka styrk og þekkingu bankans, ekki síst varðandi eftirlitsskyldar vörur og þjónustu. Í framtíðinni stefnir Leiguskjól að því að bjóða fjölþætta greiðslu- og fjármögnunarþjónustu til að bæta skilvirkni og einfalda þjónustu á fasteigna- og leigumarkaði.

Í tilkynningunni er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka:

„Arion banki hefur stutt vel við frumkvöðlaumhverfið á Íslandi og meðal annars starfrækt Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn. Leiguskjól er eitt af þeim félögum sem hafa farið í gegnum hraðalinn og býður félagið góða lausn fyrir einstaklinga á leigumarkaði sem eiga erfitt með að leggja fram tryggingu. Við hjá Arion banka höfum á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á að þróa sjálf stafræna þjónustu bankans og hefur bankinn kynnt fjölmargar vinsælar nýjungar eins og stafrænt greiðslumat og umsóknarferli fyrir íbúðalán ásamt því að þróa og efla Arion appið. Nú horfum við enn frekar til fjölbreytts samstarfs við fjártæknifyrirtæki sem bjóða spennandi lausnir og er samstarfið við Leiguskjól gott dæmi um slíkt. Hér horfum við til þess að leigumarkaðurinn hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Því er mikilvægt að þjónusta við leigjendur aukist og að fleirum sé gert kleift með auðveldari hætti að fara inn á þann markað.“

Þá segir Vignir Már Lýðsson, framkvæmdastjóri Leiguskjóls:

„Framtíðarsýn Leiguskjóls um fyrirkomulag fjármögnunarþjónustu fer saman við stefnu Arion banka enda hefur bankinn sett þróun stafrænna lausna á oddinn um langt skeið. Fyrir ungt fjártæknifyrirtæki felast mikil tækifæri í nánu samstarfi við Arion banka, bæði sem samstarfsaðila og fjárfestis. Leiguskjól hefur sett hraða og sjálfvirkni í fjármálaþjónustu í öndvegi til að draga úr kostnaði og auka þjónustu við viðskiptavini. Með samstarfi við traustan aðila á borð við bankann gefst félaginu kostur á að koma fleiri hugmyndum tengdum fjármögnun á fót og bæta þjónustu við viðskiptavini.”