Arion banki hefur sent Fjármálaeftirlitinu auk ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, erindi vegna aðgerða sem Landsbankinn kynnti fyrr á árinu til handa skuldugum viðskiptavinum bankans. Að mati Arion er bolmagn Landsbankans til aðgerðanna tilkomið vegna þess að bankinn er í eigu ríkisins og valda þær skekkju á bankamarkaði.

Í aðgerðunum felst að viðskiptavinir Landsbankans fá meiri skuldaafslátt en sátt náðist um á milli aðila á bankamarkaði í sambandi við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar fyrir skuldsett heimili og í tilkynningu frá Arion banka segir að spurningar vakni um hvort Landsbankinn sé ekki að dreifa almannafé misjafnt á milli almennings. Nær hefði verið að greiða arð til ríkisins sem síðan hefði skipt fénu á milli allra landsmanna. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að Landsbankanum sé ekki heimilt að greiða út arð.

Í tilkynningu Arion kemur einnig fram að skekkja á bankamarkaði gæti orðið til þess að fæla fjárfesta frá.