Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest í kauphöllinni í vikubyrjun, eða um 4,76%, niður í 1,50 krónur, sem er akkúrat 50% yfir útboðsgengi bréfa félagsins í september á síðasta ári.

Viðskiptin með bréf félagsins námu 332 milljónum króna sem voru fjórðu mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag. Einungis fjögur félög í heildina hækkuðu í virði í dag, tvö tryggingafélög og tvö fasteignafélög. Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar námu 3 milljörðum króna, en Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,92% í þeim niður í 2.610,73 stig.

Mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 938,6 milljónir króna, en lækkun þeirra var sú næstmesta með bréf í einu félagi í dag, eða um 1,66%, niður i 94,50 krónur.

Þriðja mesta lækkunin var svo með bréf Marel, eða um 1,21%, niður í 814 krónur, í jafnframt þriðju mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi eða fyrir 549,1 milljón króna.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Haga, eða fyrir 582,2 milljónir króna, en bréf félagsins stóðu í stað í þeim í 60 krónum. Bréf TM hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,55%, upp í 56,40 krónur, í þó ekki nema 19 milljóna króna viðskiptum.

Annað tryggingafélag, Sjóvá, hækkaði næst mest, eða um 0,34%, upp í 29,20 krónur, einnig í tiltölulega litlum viðskiptum eða fyrir 29 milljónir króna. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Reginn, eða um 0,22%, upp í 22,60 krónur, í 245 milljóna króna viðskiptum.

Bandaríkjadalur styrkist en evran veikist

Af helstu viðskiptamyntum Íslands styrktist krónan í dag gagnvart evru, svissneskum franka, og norðurlandakrónunum, en veiktist gagnvart engilsaxnesku löndunum tveimur og Japan.

Þannig var veiking evrunnar gagnvart krónunni 0,13%, og fæst hún nú á 155,98 krónur, veiking svissneska frankans nam 0,08%, í 144,05 krónur, dönsku krónunnar um 0,12%, niður í 20,976 krónur, sænsku krónunnar um 0,31%, niður í 15,471 krónu og loks veiktist norska krónan mest, eða um 0,92%, niður í 15,004 krónur.

Styrking Bandaríkjadals var sú mesta, eða um 0,75%, upp í 128,35 krónur, næst á eftir kom japanska jenið með 0,39% styrkingu upp í 1,2313 krónur og svo styrktist breska pundið gagnvart íslensku krónunni um 0,02% og fæst nú á 173,10 krónur.