*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 16. desember 2019 13:02

Arion leggst gegn gjaldi í skilasjóð

Nýtt frumvarp gæti kostað viðskiptabankana allt að 8,5 milljarða. „Bæta gráu ofan á svart“ þrátt fyrir lækkun bankaskatts.

Höfuðstöðvar Arion banka eru í Borgartúninu.
Haraldur Guðjónsson

Arion banki leggst gegn viðbótarálagninu á viðskiptabankana til fjármögnunar nýjum skilasjóði sem mælt er fyrir um í nýjum frumvarpsdrögum til laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Þetta kemur fram í umsögn sem bankinn hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, en gjaldið nemur 1% af tryggðum innistæðum bankanna fyrir árslok 2027.

Miðað við innistæður í árslok 2018 gæti sú fjárhæð numið allt að 8,5 milljörðum króna, en á móti dregst frá þeirri upphæð 2,4 milljarðar sem settir verða í sjóðinn úr innistæðudeild Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Þessi gjaldheimta leggst ofan á sérstaka skattlagningu sem nú þegar er á bönkunum, auk hárra eiginfjárkrafna og auknu eftirliti sem „bæta gráu ofan á svart“ eins og segir í umsögninni.

Er þá verið að vísa í sértæka bankaskattinn, sem leggast á allar skuldir viðskiptabankanna, þó reyndar sé ætlunin að lækka hann á árunum 2021 til 2024 úr 0,376% í 0,145% samkvæmt frumvarpsdrögunum. Einnig er sérstakur 6% fjársýsluskattur af tekjustofni yfir einum milljarði króna.

Loks er sérstakur 5,5% fjársýsluskattur af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja en eins og Viðskiptablaðið hefur ítarlega greint frá hafa verið miklar uppsagnir og hagræðing hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum undanfarin misseri og ár.

Segir bankinn að þessi víðtæka og sívaxandi skattheimta hafi leitt til hríðversnandi samkeppnisstöðu viðskiptabanka á Íslandi, aukið skuggastarfsemi og „eftir atvikum uppstokkunar einstakra sviða bankanna og uppsagna starfsmanna“.

Ítrekar bankinn því fyrri áskorun sína um að í stað þessa frumvarps fari fram kortlagning og heildarstefnumörkun um skattheimtu og rekstrarumhverfi viðskiptabanka á Íslandi, enda gefi breytt fjármagnsskipan, ytri aðstæður og fyrirliggjandi frumvarp auk fyrri breytinga á lögum ærið tilefni til slíkrar endurskoðunar og stefnumörkunar.