Í síðustu viku tilkynntu fasteignafélögin Reitir og Eik áform sín um að skrá félögin á hlutabréfamarkað í apríl en ásamt Símanum eru þau einu félögin sem hafa tilkynnt um skráningu á næstunni. Enn hefur ekkert verið gefið út um nákvæma dagsetningu á skráningu Símans á markað en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu stefnir það að skráningu á þessu ári. Að öllu óbreyttu ættu þá að vera sextán félög skráð á Aðallista Kauphallarinnar þegar þetta ár er liðið.

Arion banki mun sjá um skráningu allra fyrirtækjanna þriggja sem stefna á markað en bankinn á jafnframt hlut í þeim öllum. Að sögn Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar, framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, hafa skráningarnar mikla merkingu fyrir bankann. „Það að sjá um þessar skráningar er spennandi verkefni fyrir okkur á fjárfestingabankasviði. Við erum með ansi reynslumikinn hóp hér sem hefur farið í gegnum svona skráningar. Þetta mun auka þá þekkingu sem býr hér í hópnum og gera okkur betur í stakk búin til að takast á við fleiri skráningar í framtíðinni,“ segir Halldór.

Í samræmi við áform viðskiptabankanna

Viðskiptabankarnir þrír og lífeyrissjóðir eru stærstu hluthafar allra þeirra fyrirtækja sem fyrirhuguð eru á markað en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það fyrst og fremst Arion banki sem leitast við að losa sinn hlut í þeim. Skráning fyrirtækjanna er í samræmi við áform viðskiptabankanna um að losa hlut sinn í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Forsvarsmenn allra fyrirtækjanna neita að gefa upp að svo stöddu hversu stóran hlut hvert og eitt þeirra mun bjóða út né hvert skráningargengi útboðanna verður. Til viðmiðunar er hlutur Arion banka í Reitum 22%, Eik 14,3% og 38% í Skiptum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .