Nýja Kaupþing mun heita Arion samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.  Verður nýtt nafn kynnt á fundi starfsmanna seinni partinn í dag og hafa starfsmenn verið boðaðir á fund í Hafnarhúsinu klukkan 17.30.

Nýja Kaupþing á nú þegar Arion nafnið. Bakvinnsla bankans hefur verið í sérstöku félagi sem heitir Arion verðbréfavarsla. Það félag býður einnig öðrum fjármálafyrirtækjum, stofnanafjárfestum, verðbréfa- og lífeyrissjóðum þjónustu í bakvinnslu, útgáfu, vörslu og umsýslu sjóða og verðbréfa.

Búið er að leggja heilmikla vinnu við að finna nýtt nafn á bankann. Í sumar var búið að hanna merki Nýja Kaupþings og stóð þá til að bankinn héti Nordis. Stóð til að kynna það nafn þegar lánabók Kaupþings lak á netið. Frestaðist málið og var svo hætt við þá nafngift.

Aðrar hugmyndir að nafni hafa verið Lind, Esja, Atlantis og Stefnir.