Af einstökum fjármálafyrirtækjum var Arion banki með mestu hlutdeildina, eða rétt rúmlega fimmtung, af öllum viðskiptum á Aðalmarkaði kauphallarinnar á síðasta ári, meðan Íslandsbanki var með mestu umsvifin, eða rétt undir fimmtungi, á skuldabréfamarkaði.

Hlutdeild fjármálafyrirtækjanna í umsjón viðskipta á hlutabréfamarkaði var sem hér segir:

  • Arion banki - 21,8%
  • Íslandsbanki - 18,2%
  • Fossar markaðir - 16,8%
  • Kvika banki - 16%

Yfirlit yfir hlutdeild fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði 2020
Yfirlit yfir hlutdeild fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ef eingöngu er litið til hlutabréfaviðskipta sem eiga sér stað við pörun tilboða í tilboðabók (pöruð viðskipti) er Arion banki áfram með mestu hlutdeildina á árinu, eða 27% en næstur kemur Kvika banki með 20,9% og síðan Íslandsbanki með 19,6%.

Þegar litið er til kauphallarviðskipta sem samið er um utan tilboðabókar og tilkynnt til Kauphallar (tilkynnt viðskipti) eru Fossar Markaðir með mestu hlutdeildina á árinu 2020, eða 22,1%. Næstur kemur Arion banki með 19,1% og þar næstur er Íslandsbanki með 17,5% hlutdeild.

Á First North markaðnum var Arion banki með mestu hlutdeildina, 42,2%, á árinu 2020. Næstur var Kvika banki með 25,2% og þarnæstir Arctica Finance með 21,2%.

Hlutdeild fjármálafyrirtækjanna í umsjón viðskipta á skuldabréfamarkaði var sem hér segir:

  • Íslandsbanki - 18,95%
  • Kvika banki - 18,9%
  • Arion banki - 16,1%

Yfirlit yfir hlutdeild fjármálafyrirtækja á skuldabréfamarkaði 2020
Yfirlit yfir hlutdeild fjármálafyrirtækja á skuldabréfamarkaði 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þegar litið er til paraðra skuldabréfaviðskipta er Kvika banki með mestu hlutdeildina á árinu 2020, eða 27,1%.
Næstur í röðinni var Arion banki með 22% og þar næstur var Íslandsbanki með 21,1% hlutdeild í pöruðum skuldabréfaviðskiptum.

Í tilkynntum skuldabréfaviðskiptum voru Fossar Markaðir með mestu hlutdeildina á árinu 2020, eða 21,6%. Næstir koma Íslenskir fjárfestar með 19,9% og þar næstir koma Íslandsbanki með 16,8% hlutdeild.