Arion banki sem er nú orðinn stærsti hluthafinn í United Silicon íhugar að kæra Magnús Garðarson, stofnanda United Silicon. Magnús er grunaður um stórfelld auðgunarbrot samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins . Erlendir fjárfestar eiga nú nær ekkert í félaginu. Lífeyrissjóðir sem eiga eignarhlut á móti Arion banka, íhuga einnig að leita réttar síns vegna málsins.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær, þá kærði stjórn United Silicon Magnús til Embættis héraðssaksóknara. Talið er að hann hafi dregið að sér ríflega hálfan milljarð króna, jafvel allt frá stofnun félagsins. Karen Kjartansdóttir staðfesti í gær í samtali við Viðskiptablaðið að tilhæfulausir reikningar hafi verið gefnir út og þeir greiddir í góðri trú af stjórnendum United Silicon. Reikningarnir skiluðu sér þó aldrei í réttar hendur.

Samkvæmt frétt RÚV fer Arion banki nú með ráðandi hlut í félaginu. Einnig eiga þrír lífeyrissjóðir; Festa Frjálsi lífeyrissjóðurinn, og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna hlut í United Silicon. Hlutur þeirra erlenda félaga, bæði danskra og hollenskra, sem áttu nokkuð stóran hlut í félaginu, hefur nær allur verið tekin yfir. Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs segir í samtali við Ríkisútvarpið að sjóðirnir hyggist sækja allan þann rétt sem þeir geta sótt. Það er skelfilegt að þetta skuli hafa komið upp og viðbrögðin eru eiginlega ekkert annað en sjokk, vandamál félagsins voru nú ærin fyrir,“ sagði Gylfi í samtali við fréttastofu.