Arion banki og MP Straumur hafa gert með sér samning um viðskiptavakt á sértryggðum skuldabréfum á Nasdaq OMX Iceland útgefnum af Arion banka. Tilgangur samningsins er að efla viðskipti með þau skuldabréf sem samningurinn tekur til í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á skuldabréfunum og verðmyndun verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

MP Straumur mun daglega setja fram kaup- og sölutilboð í skuldabréfin. Lágmarksfjárhæð að nafnvirði í markflokka skuldabréfa skal vera 80 m. kr. en lágmarksfjárhæð tilboða í aðra flokka skal vera 20 m. kr.  Fyrir markflokka gildir að ef útistandandi nafnvirði er minna en 10 ma. kr. skal fjárhæð tilboða vera 60 m. kr. en 80 m. kr. þegar stærð flokks hefur náð 10 ma. kr. að nafnvirði. Skuldabréfaflokkarnir ARION CBI 21, ARION CBI 29 og ARION CB 22 eru markflokkar.