Á Sprotaþingi Íslands sem haldið var í höfuðstöðvum Arion banka í gær kynnti bankinn nýtt frumkvöðlasetur sem kallast Startup Reykjavík og er unnið í samstarfi við Innovit og Klak. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum.

Startup Reykjavík mun fara fram yfir sumarmánuðina og verða í vor valin 10 teymi frumkvöðla sem hvert um sig mun vinna að sinni viðskiptahugmynd þar sem þeim verður lagt til 2 milljónir í hlutafé frá Arion banka gegn hlutdeild í fyrirtækinu. Þá fá teymin 10 vikna þjálfun frá sérfræðingum víðs vegar úr atvinnulífinu og starfsfólki Innovits og Klaks. Ennfremur fá teymin aðgang að tengslaneti Global Accelerator Network.