Styrmir Sigurjónsson
Styrmir Sigurjónsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Styrmir Sigurjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka og mun hefja störf þann 17. febrúar næstkomandi.

Styrmir hefur reynslu í upplýsingatækni og vöruþróun en frá árinu 2009 hefur hann starfað hjá Natera í Bandaríkjunum. Natera sérhæfir sig á sviði erfðagreiningar og er skráð í Nasdaq CM kauphöllina.

Styrmir hefur frá árinu 2012 gegnt ýmsum stjórnunarstörfum hjá Natera, verið framkvæmdastjóri rannsóknar og vöruþróunar frá árinu 2017 og stýrt yfir 200 manna þróunarteymi sem er staðsett í mörgum löndum. Áður en Styrmir höf störf hjá Natera starfaði hann hjá Straumi fjárfestingarbanka, FL Group og fjárfestingarbanka Citi.

Styrmir er með doktors- og meistarapróf í rafmagnsverkfræði frá Stanford og C.S. próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands. Styrmir er giftur Berglindi Erlingsdóttur mannfræðingi og eiga þau þrjú börn.