Aðalmeðferð í skuldamáli Arion banka á hendur BGE Eignarhaldsfélagi mun fara fram næstkomandi föstudag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

BGE, sem var í eigu helstu stjórnenda og eigenda Baugs Group, skuldar Arion um 1,8 milljarða króna vegna láns sem bankinn veitti félaginu til að kaupa hlutabréf í Baugi Group. Eina veðið fyrir láninu að mati eigenda BGE var í bréfunum sjálfum.

Eigendur félagsins voru Jón Ásgeir Jóhannesson, Gunnar Sigurðsson, Stefán Hilmarsson, sem var stjórnarformaður þess, og níu aðrir fyrrum starfsmenn Baugs. Auk þess átti Skarphéðinn Berg Steinarsson hlut í BGE fram á mitt ár 2008, þegar hann seldi félaginu sjálfu sinn hlut.

Í síðasta birta ársreikningi BGE Eignarhaldsfélags, sem var fyrir árið 2007, kom fram að eigendur félagsins hefðu samtals fengið að láni 3,4 milljarða króna frá félaginu sjálfu. Félagið var stofnað í nóvember 2003 til að halda utan um kauprétti starfsmanna Baugs.