Arion banki hf. lauk síðastliðinn föstudag fyrsta útboði bankans á sértryggðum skuldabréfum sem eru óverðtryggð. Alls voru seld skuldabréf til fagfjárfesta fyrir 1220 milljónir að nafnvirði í skuldabréfaflokknum Arion CB 15.

Í tilkynningu bankans til kauphallar kemur fram að skuldabréfaflokkurinn verði tekinn til viðskipta nú í maí. Skuldabréfin bera 6,50% óverðtryggða vesti og eru á lokagjalddaga árið 2015.

Í tilkynningunni er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni bankastjóra að Arion banki sé nú fyrstur banka hérlendis til að gefa út sértryggð skuldabréf sem séu óverðtryggð. „Bankinn hefur sýnt frumkvæði á íbúðalánamarkaði þegar kemur að óverðtryggðum íbúðalánum og kynnt til leiks fjölda nýjunga. Útboðið nú kemur þar í rökréttu framhaldi. Útboðið er enn einn liðurinn í að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans.“