*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 17. september 2019 09:06

Arion selur ÍLS íbúðalánasafn

Sala safnsins og uppgreiðsla á sértryggðum skuldabréfaflokki mun hafa 1,3 milljarða jákvæð áhrif á afkomu Arion banka.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sala á íbúðalánasafni og uppgreiðsla á sértryggðum skuldabréfaflokki mun hafa jákvæð áhrif á afkomu Arion banka á fjórða ársfjórðungi. Áætlað er að áhrifin verði um 1,3 milljarðar króna.

Í afkomutilkynningu bankans vegna annars ársfjórðungs, sem birt var í upphafi síðasta mánaðar, kom fram að bankinn hygðist greiða upp skuldabréfaflokkinn Arion CB2. Andvirði hans er um 60 milljarðar króna og er að stærstum hluta í eigu Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn og bankinn hafa einnig gert samkomulag um að Arion selji sjóðnum íbúðalánasafn að fjárhæð um 50 milljarða króna.

„Viðskiptavinir bankans verða ekki fyrir áhrifum af kaupum Íbúðalánasjóðs og Arion banki mun áfram þjónusta og innheimta lánin,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Sala íbúðalánasafnsins hefur einnig jákvæð áhrif á eiginfjárhlutfall bankans þar sem áhættuvegnar eignir bankans lækka um 18 milljarða.

Samkomulagið við Íbúðalánasjóðs, sem og uppgreiðsla skuldabréfanna, eru háð nokkrum skilyrðum en meðal annars þarf Samkeppniseftirlitið að leggja blessun sína á þau. Þá þarf einnig að ljúka kostgæfniathugun og gera þjónustu- og afkomuskiptasamning milli aðilanna.

„Jákvæð áhrif á afkomu bankans eru fyrst og fremst vegna lægri bankaskatts á árinu 2019 auk þess sem afföll sem bankinn hefði tekjufært við uppgreiðslu lána eða á líftíma þeirra verða tekjufærð í einu lagi á fjórða ársfjórðungi 2019. Bankinn mun áfram fá tekjur af íbúðalánunum á grundvelli þjónustu- og afkomusamnings við Íbúðalánasjóð,“ segir enn fremur í tilkynningunni.