Nýlega gerði Arion banki samning við Icelandair um áframhaldandi samstarf vegna útgáfu vildarkorta, en með notkun vildarkorta safna korthafar Vildarpunktum Icelandair.

Samningurinn felur í sér nokkrar breytingar fyrir korthafa, að því er segir í tilkynningu frá Arion. Meðal annars munu vildarkortshafar framvegis safna Vildarpunktum Icelandair af allri innlendri verslun í stað aðeins hluta áður. Er þetta gert til einföldunar fyrir korhafa og er markmiðið bætt upplifun viðskiptavina Arion banka við notkun vildarkortanna og söfnun Vildarpunkta Icelandair.

Áður höfðu Arion banki og Icelandair gert með sér samkomulag vegna MasterCard World Elite kortsins. Handhafar þess safna Vildarpunktum af allri innlendri og erlendri verslun og felur kortið einnig í sér umfangsmikil ferðafríðindi, meðal annars aðgang að Saga Lounge í Keflavík auk vinamiða að uppfylltum skilyrðum.