Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 var jákvæð um 4,5 milljarða króna eftir skatta samanborið við 3,0 milljarða á sama tíma á árinu 2011. Í tilkynningu frá bankanum segir að arðsemi eigin fjár hafi verið 16,5% samanborið við 11,3% á sama tímabili árið 2011. Árshlutareikningurinn fyrir fyrsta ársfjórðung 2012 er óendurskoðaður.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 20,2% en í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 var það 19,2%, en krafa Fjármálaeftirlitsins kveður á um 16% eiginfjárhlutfall.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 2,5 milljörðum, samanborið við 3,1 milljarð á síðasta ári, rekstrartekjur jukust úr 9,5 milljörðum í 10,9 milljarða og hreinar vaxtatekjur jukust úr 5,9 milljörðum í 6,2 milljarða króna. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% á fjórðungnum, samanborið við 3,4% á sama tíma í fyrra.

Eignir bankans námu 899,4 milljörðum í marslok og eigið fé nam 119 milljörðum króna. Í tilkynningunni er haft eftir Höskuldi Ólafssyni, bankastjóra Arion banka að uppgjörið beri vott um þann stöðugleika sem verið hafi í grunnrekstri bankans undanfarin misseri. Þá sé einni jákvætt hversu vel fjárfesta hafi tekið sértryggðri skuldabréfaútgáfu bankans, jafnt verðtryggðri sem óverðtryggðri. Hins vegar hafi óvissa, sem tengist gengislánum og dómum Hæstaréttar dregið verulega úr hraða við úrvinnslu skuldamála.