Hagspá Arion banka gerir ráð fyrir því að samdráttur muni nema 8,2% á Íslandi árið 2020. Útlit er fyrir það að allir undirliðir landsframleiðslunnar, að hinu opinbera undanskildu, dragist saman í ár.

Útflutningur vegur þungt enda gerir Arion ráð fyrir rúmlega hálfri milljón ferðamanna, samanborið við rúmlega 2 milljónir árið 2019. Árið 2021 er spáð milljón ferðamönnum og 1,4 milljónum árið 2022. Á sama tíma er gert ráð fyrir að samdráttur í utanlandsferðum Íslendinga sé áþekkur samdrættinum í komum ferðamanna, því sé reiknað með að viðskiptaafgangur haldi velli.

Arion gerir ráð fyrir rúmlega 4% hagvexti árið 2021 og 3,7% hagvexti 2022. Því er gert ráð fyrir djúpum samdrætti en að margt  bendi til þess að hann verði skammvinnur. Óvissan er þó enn mikil og margt sem geti breyst.

Gerir Arion ráð fyrir því að atvinnuleysi verði að meðaltali 9% yfir árið, en ætla má að það nái hámarki í haust en verði svo fljótt að síga þegar hagkerfið tekur við sér á ný. Útlit er fyrir að verðbólga fari tímabundið yfir markmið Seðlabankans þegar líða tekur á árið.

Hér að neðan má sjá hagvaxtarspá Arion banka auk þróun undirliða sem finna má í hagspá þeirra.