*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 9. nóvember 2017 14:07

Arion spáir einnig óbreyttum vöxtum

Greiningardeild bankans segir líklegast að vextir verði óbreyttir en telja peningastefnunefnd langa að lækka vexti.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Arion banki spáir því að Seðlabanki Íslands tilkynni um óbreytta vexti á peningastefnunefndarfundi 15. nóvember. Meginvextir verði því áfram 4,25% en að mati Greiningardeildar Arion mælir slaknandi aðhald peningastefnunnar helst með óbreyttum vöxtum. Verðbólga hækkaði um 0,47 prósentustig í október og stendur nú í 1,9%.

Þá segir greiningardeildin að aðrir þætti hafi lítið breyst en ekki sé útilokað að vextir lækki. Ennfremur að vaxtalækkunin í október hafi verið í talsverðri mótsögn við fyrri orð nefndarinnar og hafi þess vegna komið flestum á óvart. „Þannig fáum við ekki betur séð en að peningastefnunefnd langi virkilega að lækka vexti,“ segir í greiningunni enda gerir deildin ráð fyrir að vextir geti lækkað um 25 punkta í viðbót á næstunni, mögulega í desember.

Arion banki er því sammála bæði Greiningu Íslandsbanka sem og greiningu Hagfræðideildar Landsbankans sem spá því einnig að stýrivextir haldist óbreyttir á vaxtaákvörðunarfundinum þann 15. nóvember.

Arion banki birti í gær hagspá greiningardeildar en í henni er gert ráð fyrir 4,2% hagvexti í ár en að hann lækki töluvert á milli ára á næsta ári og verði 2,6%.Verði raunin sú að verðbólga haldist við markmið og framleiðsluspenna fjari út verði mögulegt að stýrivextir lækki niður 3,5% á fyrri hluta næsta árs. Þá kallar greiningardeildin eftir því að seðlabankinn beiti framsýnni leiðsögn með skýrari hætti og veltir því upp hvort ekki hefði farið betur á því í október að gefa í skyn að vaxtalækkun væri í pípunum að gefnum ákveðnum forsendum.

Greininguna má finna í heild sinni hér