Greiningardeild Arion banka væntir þess að á fundi peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands þann 8. febrúar næstkomandi verði stýrivöxtum haldið óbreyttum í 5%.

Nefndin kom greiningardeildinni á óvart á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum í desember með því að lækka vextina um 0,25 prósentustig ásamt því að gefa í skyn að fleiri litlar vaxtalækkanir væru í pípunum.

Áhrif veikingar krónunnar

Síðan hafi gengi krónunnar hins vegar veikst lítillega, verðbólguhorfur á heimsvísu hafi frekar versnað ásamt óvissu um kjarasamninga á næstu vikum sem gæti þýtt enn meiri launahækkanir.

Vegna verkfalls sjómanna og lítils gjaldeyrisinnflæðis yfir háveturinn hafi krónan veikst sem dragi úr vilja til vaxtalækkunar.

Hækkun húsnæðisverðs

Þetta ásamt vísbendingum um áframhaldandi hækkanir á húsnæðisverði og vaxandi innlendri verðbólgu telur greiningardeildin að gæti leitt til þess að nefndin verði varfærnari, jafnvel þó að verðbólguvæntingar séu enn lítillega undir verðbólgumarkmiði.

Telja þeir að húsnæðisverð hækki um 14% í ár og tæplega 10% á næsta ári.

Of lítið aðhald í ríkisfjármálum

Telja sérfræðingar Arion banka að peningastefnunefndin líti á að ekki sé nægilegt aðhald í ríkisfjármálum vegna aukinna útgjalda í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi.

Telja sérfræðingarnir enn mjög óljóst hvort vaxtamunurinn við útlönd komi inn í ákvarðanir peningastefnunefndarinnar vegna mismunandi skilaboða úr bankanum. Vaxandi verðbólga á evrusvæðinu gæti þó dregið úr viljanum til að færa vaxtastigið á móts við það sem gerist víðar um heim.

Endurskoðun kjarasamninga vofir yfir

Hætta er á að vaxandi fjölgun ferðamanna og áframhaldandi hagvöxtur leiði til aukinnar neyslu sem er tilefni til að halda vöxtum óbreyttum áfram.

Jafnframt virðist óvissa um launaþróun og möguleg áhrif endurskoðunar kjarasamninga leiðir til þess að óbreyttir vextir eru líklegri en hitt.