Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanks ákveði að stýrivextir verði óbreyttir. Meginvextir verði því áfram 4,25% eftir fund peningastefnunefndar á miðvikudaginn í næstu viku.

Greiningardeildin segir að stóra myndin hvað varðar verðbólguhorfur og aðra efnahagsþróun hafi lítið breyst frá síðustu ákvörðun í nóvember, þegar nefndin taldi aðhald peningastefnunnar hæfilegt. „Jafnvel þó líklega sé svigrúm fyrir frekari vaxtalækkun teljum við að það væri slæmt fyrir trúverðugleika peningastefnunefndar að lækka vexti nú þar sem fjárlög liggja ekki fyrir.“

Nýbirtar tölur Hagstofunnar um þjóðhagsreikninga styrkja greiningardeildina í þeirri skoðun að vextir verði óbreyttir í næstu viku. Þó að 3,1% hagvöxtur á 3. ársfjórðungi sé undir væntingum þá sé hann nokkuð yfir spá Seðlabankans sem hljóðaði upp á rúmlega 1%.

Þá segir jafnframt í greiningunni að í huga peningastefnunefndar virðist vera skýrt að ef afgangur ríkissjóðs minnkar muni það kalla á meira aðhald og því hærri vexti en ella. Enda sýnir fráviksdæmi í Peningamálum að vextir muni verða meira en hálfu prósenti hærri en ella ef það sem Seðlabankinn kallar „neðri mörk kosningaloforða“ rætist. Viðskiptablaðið fjallaði um það í gær að mat Samtaka Atvinnulífsins væri að stjórnarsáttmálinn kostaði um 90 milljarða króna á ári.