*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 22. nóvember 2017 09:13

Arion tapar 600 milljónum til viðbótar

Rekstur United Silicon hefur kostað 200 milljónir króna á mánuði síðan kísilverksmiðjan var sett í greiðslustöðvun.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Frá því að kísilverksmiðjan United Silicon fékk heimild til greiðslustöðvunar um miðjan ágúst hefur kostnaður við rekstur hennar verið um 200 milljónir króna á hverjum mánuði síðan segir í Fréttablaðinu í dag.

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, hefur verið kærður vegna málefna félagsins, en hann ásamt nokkrum öðrum fyrrverandi hluthöfum félagsins kærðu á móti ákvörðun bankans að færa niður hlutabréf félagsins og taka yfir það. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær virðist Ólafur nú vera að leigja út glæsilegt einbýlishús sitt í Kópavogi án tilskilinna leyfa á Airbnb.

Rekstur kísilverksmiðjunnar er á ábyrgð Arion banka sem stendur undir öllum kostnaðinum, en mestu munar um launa- og raforkugreiðslur, auk kostnaðar við greiningarvinnu og tæknilega úttekt á fjárhagslegri óreiðu og rekstrarerfiðleikum fyrirtækisins.

Frá því um miðjan ágústmánuð hefur hins vegar framleiðslan legið niðri, og slökkt á ofni verksmiðjunnar, en þá stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemina. Hefur heildarkostnaður Arion banka af rekstrinum síðan því verið um 600 milljónir króna, en greiðslustöðvunartíminn rennur út 4. desember næstkomandi.

Hefur Arion banki sagt að leggja þurfi verulega fjármuni til að fullklára verksmiðjuna svo hægt verði að hefja þar framleiðslu á kísilmálmi, og að það muni taka einhverja mánuði til viðbótar. 

Myndi kostnaðurinn við það nema milljörðum króna, og er því ekki útilokað að United Silicon verði sett í þrot þegar greiðslustöðvunartímabilinu lýkur. Samtals hefur Arion banki fært niður eign sína í félaginu og skuldir þess við bankann um samtals 4,8 milljarða króna.