Arion banki hefur tekið yfir alla hluti í TravelCo hf. Stefnt er að því að finna nýjan eiganda að félaginu sem fyrst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum sem send var fjölmiðlum fyrr í dag.

Stofnandi TravelCo er Andri Már Ingólfsson, oft kenndur við Primera, en flugfélagið féll á síðasta ári. Unnið hefur verið að því að halda þeim hluta rekstrarins sem talinn er getað lifað til framtíðar gangandi. Í þeim hópi er TravelCo en félagið á og rekur ferðaskrifstofur á Norðurlöndunum öllum. Hér á landi hefur reksturinn farið fram undir flaggi Heimsferða og Terranova.

„Að­eins er um að ræða breyt­ingu á eign­ar­haldi en dag­leg starf­semi og þjón­usta ferða­skrif­stof­anna helst óbreytt. Mark­mið Arion banka er að tryggja áfram­hald­andi starf­semi ferða­skrif­stof­anna og hags­muni bank­ans,“ segir í til­kynn­ingu Arion banka.

Í til­kynn­ingu þakkar Andri starfs­fólki fyrir að hafa byggt félagið upp í sam­starfi við hann. „Mér er efst í huga þakk­læti til alls þess frá­bæra starfs­fólks sem ég hef starfað með og hefur tekið þátt í upp­bygg­ingu félags­ins á und­an­förnum árum. Tra­velCo er eitt öfl­ug­asta fyr­ir­tæki Norð­ur­landa á sviði ferða­þjón­ustu og ég óska félag­inu og starfs­fólki þess alls hins besta í fram­tíð­inni sem ég veit að verður björt,“ segir Andri.