*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 14. október 2019 17:15

Arion tók Travelco yfir vegna vanefnda

Arion banki tók yfir TravelCo, áður Primera, vegna vanefnda fyrirtækisins við bankann. Arion þarf að seja fyrirtækið á næstu misserum.

Ingvar Haraldsson
Jón Karl Ólafsson, tók við sem stjórnarformaður TravelCo í júní þegar bankinn tók fyrirtækið yfir.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað Arion banka að eiga ferðaskrifstofusamstæðuna TravelCo. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að bankinn hafi tekið TravelCo yfir vegna fjárhagserfiðleika og vanefnda félagsins við bankann. Meðal trygginga fyrir skuldbindingum TravelCo gagnvart Arion banka var veð í öllu hlutafé innan samstæðunnar sem bankinn gekk að og tók yfir í júní á þessu ári. Þá var Jón Karl Ólafsson, skipaður stjórnarformaður TravelCo.

TravelCo var stofnað í október 2018 og tók yfir ferðaskrifstofur í eigu Primera Travel Group í kringum gjaldþrot flugfélagsins Primera Air. TravelCo tók þá einnig yfir skuldir Primera Travel Group við Arion banka, sem var viðskiptabanki samstæðunnar. Andri Már Ingólfsson, eigandi Primera Air sagði yfirfærsluna í nýtt félaga hafa verið gerða að kröfu Arion banka í viðtali við Viðskiptablaðið. Meðal eigna Travelco eru Heimsferðir, Terra Nova Sól á Íslandi auk ferðaskrifstofa í Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. 

Sjá einnig: Andri Már ósáttur við Arion banka

Samþykki SKE er háð ákveðnum skilyrðum, meðal annars um að aðskilnaður þurfi að vera milli TravelCo og annarrar starfsemi bankans. TravelCo þurfi að vera rekið með arðsemissjónarmið í huga líkt og fyrirtæki á markaði og ekki megi mismuna milli TravelCo og samkeppnisaðila sem kunni að vera í viðskiptum við bankann. 

Þurfa að selja Íslendingum í opnu söluferli

Þá er Arion banka gert að selja fyrirtækið innan tiltekins tímafrests en tímafresturinn er trúnaðarmál og fæst ekki uppgefinn. Í ákvörðuninni segir að verði fyrirtækið selt á Íslandi skal það gert í opnu og gegnsæu söluferli til að tryggja að mögulegir kaupendur hafi ekki forskot á samkeppnisaðila innanlands í krafti upplýsingar um starfsemi TravelCo. Verði fyrirtækið selt erlendum aðila eigi þetta skilyrði ekki við.