Á heildina litið uppfylla aðgerðir Arion banka hf. þær kröfur sem almennt eru gerðar í lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þetta eru niðurstöður vettvangsathugunar sem Fjármálaeftirlitið gerði hjá hjá Arion banka hf. í mars. Athugunin beindist að tilteknum þáttum er varða eftirlit Arion banka hf. með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í athuguninni var lögð sérstök áhersla á áreiðanleikakannanir Arion banka hf. við upphaf viðskipta sem og viðvarandi eftirlit með lögaðilum.

Helstu niðurstöður úr þeim úrtökum sem Fjármálaeftirlitið skoðaði voru að gerð var athugasemd við framkvæmd áreiðanleikakönnunar á fjórum af þeim 15 lögaðilum sem athugun Fjármálaeftirlitsins tók til. Af þeim 11 lögaðilum sem Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemdir við athuganir hjá, kom Fjármálaeftirlitið með ábendingu í tilviki þriggja.