Fjármálatímaritið The Banker, sem gefið er út af The Financial Times, hefur valið Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

Árangur bankans og áhersla hans á umhverfis- og félagsþætti sem og stjórnarhætti er meðal þess sem tímaritið horfði til og auk þess nefnir The Banker nokkra þætti í stefnu og starfsemi bankans sem tímaritið telur hafa skipt sköpum í árangrinum. Þar er sérstaklega horft til fyrirtækjaþjónustu bankans sem var elfd með sameiningu fyrirtækjalána- og fjárfestingarbankastarfsemi á einu sviði innan bankans. Tímaritið horfði einnig til skapandi nálgunar bankans þegar kemur að vöru- og þjónustuþróun, bæði hvað varðar nýjar og eldri vörur. Sú staðreynd að lífeyrismál eru nú aðgengileg í Arion appinu vakti sérstaka athygli. Arion banki hefur, fyrstur banka, gert viðskiptavinum sínum kleift að sækja um viðbótarlífeyrssparnað og nálgast upplýsingar um stöðu sinna lífeyrismála í Arion appinu.

Við valið á Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2021 var einnig tekið til þess að bankinn hefur bætt grænni fjármálaþjónustu við vöruframboð sitt. Í tilkynningu segir að græn innlán bankans nemi í dag um 11 milljörðum króna. en bankinn var fyrstur til að kynna hér á landi græn innlán og græn íbúðalán. Auk þess geta viðskiptavinir bankans tekið græn bílalán. Græn innlán eru hugsuð fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar. Þannig hafa græn innlán m.a. verið nýtt til að fjármagna græn bílalán og mengunarvarnir.