*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 18. ágúst 2020 13:20

Arion veitt 992 milljónir í stuðningslán

Um 13,6% af fyrirtækjalánum og 5,8% einstaklingslána hjá Arion banka voru í greiðsluhléi þann 31. júlí síðastliðinn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Arion banki veitti fyrirtækjum stuðningslána að andvirði 992 milljónum á rúmlega tveggja og hálfs mánaðar tímabili, eða frá 12. maí til síðustu mánaðamóta. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.  

Stuðningslánin eru hluti af viðspyrnuaðgerðum stjórnvalda en litlum og meðalstórum fyrirtækjum standa til boða lán sem getur numið allt að 10% af tekjum fyrirtækja á rekstrarárinu 2019, en þó 40 milljónir króna að hámarki. Stuðningslánin bera 1% breytilega vexti, fyrir lán að 10 milljónum, miðað við núverandi meginvexti Seðlabankans.  

Í tilkynningunni kom fram að bankinn hefur í dag veitt viðbótarlán, einnig kölluð brúarlán, með 70% ábyrgð ríkisins að fjárhæð 1,2 milljarða, sem er hámarksfjárhæð sem hægt er að veita í gegnum úrræðið. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að Icelandair Hotels hafi náð samkomulagi við bankann um 1,2 milljarða brúarlán og því má gera ráð fyrir að hótelkeðjan sé eina fyrirtækið sem hafi nýtt úrræðið hjá Arion. 

Arion Banki hefur boðið bæði einstaklingum og fyrirtækjum upp á greiðsluhlé á afborgunum vegna COVID-19. Eftirfarandi tafla sýnir þróun lána í greiðsluhléi sem hlutfall af lánum til einstaklinga, fyrirtækja og heildarlánabók.

Reiknað bráðabirgða eiginfjárhlutfall Arion er í dag 27,8% og reiknað hlutfall eiginfjárþáttar 1 er 22,9%, en hlutfallið tekur ekki tillit til fyrirsjáanlegrar arðgreiðslu að fjárhæð tíu milljarða króna. Bankinn væntir einnig aukningar í niðurfærslu útlána í ár en segir erfitt að leggja mat á umfang hennar á þessu stigi. Þar hefur umfang faraldursins áhrif sem og hversu lengi hann varir.