Arion banki hefur farið fram á að lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air vegna vanhæfis. Bitbeinið má rekja til starfa Sveins sem skiptastjóri DataCell en bankinn er einn stærsti kröfuhafi þess bús.

Þetta staðfestir Haraldur Guðni Einarsson, forstöðumaður samskiptasviðs bankans, við Mannlíf . Frekari svör fengust ekki önnur en þau að bankinn hyggist ekki reka málið í fjölmiðlum.

Arion á eina stærstu kröfuna í þrotabú WOW air en ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um fjárhæð þeirrar kröfu.

Í lögum um gjaldþrotaskipti er að finna skilyrði fyrir því að skiptastjóri sé settur af eftir að hafa hlotið skipun. Skilyrðin eru þó afar ströng en til þess þarf brot í starfi eða virkilega vanhirðu í starfi.

Skipan Sveins Andra og Þorsteins Einarssonar yfir bú WOW hefur verið talsvert gagnrýnd. Bæði með hliðsjón af kynjasjónarmiðum svo og vegna fyrri starfa Sveins sem skiptastjóri. Mál vegna starfa hans sem skiptastjóri EK1923 ehf. hafa til að mynda ítrekað endað fyrir dómi. Þykir mörgum sæta furðu í ljósi þess að honum hafi verið úthlutað slíku „rjómabúi“.