„Í Búðarhálsvirkjun felst upplagt tækifæri til að leiða saman innlenda og erlenda aðila í verkefnafjármögnun og stöðva um leið frekari skuldsetningu Landsvirkjunar," skrifar Stefán Broddi Guðjónsson, bankamaður, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu. „Búðarhálsvirkjun er einmitt verkefni sem mun heppilegra er að aðrir en skattgreiðendur beri stærstu áhættuna af," segir í greininni.

Hér að neðan má lesa grein Stefáns Brodda í heild:

Hvers vegna að skulda Búðarhálsvirkjun?

- eftir Stefán Brodda Guðjónsson

Búðarhálsvirkjun er áformuð 80 MW virkjun ofarlega á vatnasvæði Þjórsár. Orku þaðan á helst að nýta til að auka framleiðslugetu álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík um allt að 45.000 tonn.

Öll tilskilin leyfi fyrir virkjuninni fengust 2001 og þá hófust fyrstu framkvæmdir. Ári síðar var þeim slegið á frest. Í sumar hófust framkvæmdir að nýju og standa þær nú yfir „í hægagangi“ að því er fram hefur komið í fjölmiðlum.

Áætlaður kostnaður við virkjunaframkvæmdirnar fyrir virðisaukaskatt er um 26 milljarðar króna, en innlendur kostnaður er líklega í kringum 10 milljarðar króna. Fjármögnun framkvæmdanna hefur ekki verið tryggð en Landsvirkjun leitar nú erlendrar lánsfjármögnunar. Ríkissjóður ber einfalda ábyrgð á öllum skuldum Landsvirkjunar.

Í stuttu máli er Landsvirkjun nú að leita lánsfjár með ábyrgð íslenskra skattgreiðenda til þess að framleiða rafmagn sem síðan verður selt fyrst og fremst til einkafyrirtækis.

Búðarhálsvirkjun ætti að fjármagna fyrir eigið fé

Núverandi iðnaðarráðherra hefur talað af nokkurri framsýni um áhættufjárfestingu í orkuvinnslu. Katrín Júlíusdóttir áttar sig á því að það eru takmörk fyrir því hve mikið er hægt að skuldsetja opinber orkufyrirtæki. Þann 22. september sagði Katrín á málþingi um afgjald af auðlindum ríkisins: „Ég hef talað fyrir því að við fáum einkafjármagn inn í sjálfa orkuvinnsluna og þá til dæmis með verkefnafjármögnun þar sem innlendir eða erlendir einkaaðilar geti komið með eigið fé og ávaxtað það í tiltekinn tíma í samstarfi við það orkufyrirtæki sem fær nýtingarréttinn.“

Búðarhálsvirkjun er einmitt verkefni sem mun heppilegra er að aðrir en skattgreiðendur beri stærstu áhættuna af. Þar ber hæst að verkið er fremur lítið, í samanburði við nýlegar stórvirkjanir, og því minna í húfi en ef fyrstu skrefin í einkafjármögnun væru tekin vegna stærri framkvæmdar, orkuna á ekki að nýta í almannaþjónustu og aðstæður nú eru andsnúnar Landsvirkjun og íslenska ríkinu um lánsfjármögnun.

Nýverið lauk Landsvirkjun við skuldabréfaútboð erlendis þar sem seldust 150 milljón dollarar á 6,5% föstum vöxtum eða um 5 prósentustigum yfir „áhættulausum“ vöxtum í dollurum. Það er gömul saga og ný að þegar kjör fyrirtækja á lánsfjármörkuðum eru óviðunandi er óskynsamlegast að fjármagna framkvæmdir með lánsfé. Búðarhálsvirkjun ætti því fyrst og fremst að fjármagna fyrir eigið fé.

Þess ber þó að geta að Landsvirkjun virðist ekki vera að leita fjármögnunar Búðarhálsvirkjunar á almennum markaði heldur hefur sóst eftir lánsfjármögnun hjá Evrópska fjárfestingarbankanum sem yrði þá á mun hagstæðari kjörum. Ef slík lánsfjármögnun er í boði væri að mínu mati skynsamlegra að nýta hana til að endurfjármagna óhagstæðari heldur en í niðugreiðslu á fjármagnskostnaði við raforkuframleiðslu fyrir álver.

Í Búðarhálsvirkjun felst upplagt tækifæri til að leiða saman innlenda og erlenda aðila í verkefnafjármögnun og stöðva um leið frekari skuldsetningu Landsvirkjunar.

Hlutafélag um verkefnið

Framkvæmdin ætti ekki að vera óyfirstíganleg. Stofna mætti sérstakt hlutafélag um Búðarhálsvirkjun. Landsvirkjun gæti eignast hlut í því félagi og greiða fyrir með þeirri forvinnu sem unnin hefur verið og samningi um að þjónusta virkjunina í tiltekinn tíma. Meðal annarra hluthafa má sjá fyrir sér:

  • Íslenska  lífeyrissjóði, sem þannig gætu fjárfest í eign sem skilaði erlendu tekjustreymi og um leið styrkti starfsumhverfi umbjóðenda sinna.
  • Erlenda fjárfesta, sem gætu þar með fjárfest í eign sem skilað gætu arðstekjum í erlendri mynt.
  • Innlenda almenna fjárfesta. Íslensk sveitarfélög, sem sum hver standa, þrátt fyrir allt, vel að vígi fjárhagslega.
  • Íslenska ríkið, sem ætti eins að geta verið hluthafi í þessu fyrirtæki eins og Landsvirkjun. Hugsanlega gæti hlutafjárframlag ríkisins verið í formi nýtingarréttar á auðlindinni.

Stefnt væri að því að arðgreiðslur hæfust sem fyrst eftir að orkusala hæfist. Það ætti að vera auðsótt mál þar sem hagnaður af rekstrinum myndi eingöngu renna til Landsvirkjunar og annarra hluthafa en ekki erlendra lánveitenda.