"Ef þetta er ekki klæðskerasaumað í kringum okkar fjölmiðla sýnist mér að aðrir fjölmiðlar muni fyrr lenda í vandræðum með þessi skilyrði en við," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson stjórnarformaður Og Vodafone um tillögur fjölmiðlanefndar um takmörk á eignarhaldi fjölmiðla.

Skarphéðinn bendir á að Baugur eigi 26% hlut í Vodafone sem sé nálægt þeim mörkum sem nefndin leggi til. "Mér sýnist í fljótu bragði að þetta hljóti að hafa áhrif á bæði Skjá einn og Morgunblaðið. Það hefur heldur fækkað í hluthafahópi Morgunblaðsins og Valtýr á um 30% í blaðinu. Þá verða væntanlega tveir aðilar með um það bil 45% hlut í Símanum og spurning hvort þetta hefur þar af leiðandi áhrif á einkavæðingu Símans."

Skarphéðinn leggur áherslu á að hann hafi ekki haft tækifæri til að kynna sér tillögurnar. Sé stuðst við lýsingu blaðamanns -- að enginn einn aðili eða tengdir aðilar megi eiga meira en 25% hlut í fjölmiðli sem hafi þriðjungsútbreiðslu eða -dreifingu á einhverju sviði fjölmiðlunar -- virðist sér hins vegar í fljótu bragði að reglan sé "sérsaumuð" í kringum fjölmiðla Vodafone "eins og fyrri daginn". Hins vegar þurfi forsvarsmenn fyrirtækisins að kynna sér málið betur áður en kveðið sé upp úr um þetta.

Spurt er hvort tillaga nefndarinnar feli í sér að Og Vodafone þurfi að minnka hlut sinn í 365 ljósvakamiðlum og 365 prentmiðlum, eða hvort nægilegt sé að enginn eigi meira en 25% í Og Vodafone. Skarphéðinn segist ekki geta lagt mat á það á þessu stigi.

"En ef þetta á að ná til prentmiðla spyr maður sig líka hvernig sé með prentfrelsisákvæði og annað slíkt sem menn höfðu í huga og þótti ástæða til að taka tillit til á sínum tíma," segir Skarphéðinn Berg.

Ítallega er fjallað um tillögur fjölmiðlanefndarinnar í Viðskiptablaðinu í dag.