*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Innlent 12. janúar 2020 15:02

Áritaði óvart sem endurskoðandi

„Eftir á að hyggja hefði ég ekki átt að láta þetta fara svona,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisendurskoðandi.

Ritstjórn
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisendurskoðandi.
Haraldur Guðjónsson

Breytingar hafa verið gerðar á verkferlum Ríkisendurskoðunar vegna handvammar sem varð á liðnu ári er ríkisendurskoðandi, Skúli Eggert Þórðarson, áritaði ársreikning Íslandspósts ohf. þrátt fyrir að hafa ekki löggildingu sem endurskoðandi.

„Ég gerði grein fyrir þessu slysi á félagsfundi hjá Félagi löggiltra endurskoðenda í maí í fyrra,“ segir Skúli Eggert. Hann segir að sama dag og aðalfundur félagsins hafi átt að fara fram hafi ársreikningurinn verið tilbúinn. Þar hefði nafn hans verið sett í stað forvera hans. Önnur prentun á reikningnum hefði þýtt að fresta hefði þurft aðalfundi öðru sinni en það hafði verið gert mánuði áður.

„Það hefði verið til tjóns fyrir alla. Eftir þetta árita ég aðeins eftirlitsþáttinn sem yfirmaður stofnunarinnar en fagendurskoðendurnir reikningsskilin,“ segir Skúli. „Eftir á að hyggja hefði ég ekki átt að láta þetta fara svona.“