Félagið Arkea hf. (áður Prokaria hf.) hefur sent öllum skráðum hluthöfum Líftæknisjóðsins yfirtökutilboð eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Tilboð Arkea hf. í hlutabréf Líftæknisjóðsins miðar við að verðmæti félagins sé 170 milljónir króna sem þýðir að boðin er 1,0 króna fyrir hverja krónu nafnverðs í sjóðnum.

Tilboð þetta fellur úr gildi 1. nóvember 2006. Það er MP Fjárfestingarbanki hf. sem annast frágang á viðskiptum með hlutabréfin.

Samkvæmt ársreikningi Líftæknisjóðsins hf. fyrir árið 2005 var eigið fé félagsins skráð 160 milljónir króna en skuldir félagsins námu alls 170 milljónum króna. Eignir voru bókfærðar á 332 milljónir króna. Líftæknisjóðurinn var afskráður úr Kauphöll Íslands í fyrra.

Segja má að með samruna þessara tveggja félaga sé verið að loka ákveðnum hluta af íslenska líftækniiðnaðinum og í raun fá félög eftir fyrir utan deCODE. Líftæknisjóðurinn hét áður MP Bio og var hann stofnaður utan um hlutafjárstöðu í BioStratum Inc. en árið 2004 átti Líftæknisjóðurinn 8% hlut í BioStratum Inc. Sykursýkislyfið Pyridorin var það lyf félagsins sem lengst var komið í lyfjaþróunarferlinu og voru vonir bundnar við það árið 2004 að þróun þess myndi ljúka í lok árs 2006. Það hefur ekki gengið eftir og engin lyfjaþróun fer nú fram á vegum BioStratum.