Arkís arkitektar hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um skrifstofubyggingu sem haldin var í Litháen fyrir skemmstu. Vegna þessa er byggingafyrirtækið E.L.L. í Vilnius nú að ganga frá samningi við ARKÍS arkitekta og Baltic Engineers um hönnun skrifstofuhúsnæðisins í Litháen. Byggingin mun standa í nágrenni við miðbæ Vilnius, höfuðborgar Litháens, við Narbuto Street.

Átta teymum var boðin þátttaka og varð tillaga ARKÍS arkitekta og Baltic Engineers hlutskörpust. Byggingin er um 5.200 fermetrar að stærð, auk bílakjallara fyrir um 120 bíla. Arkís arkitektar hafa reynslu af fjöldamörgum verkefnum í Baltnesku löndunum og hafa unnið að verkefnum í Litháen allt frá árinu 2004.