Tillaga +Arkitekta sigraði í samkeppni um hönnun nýbyggingar Listaháskóla Íslands sem reist verður á horni Laugavegar og Frakkastígs.

20 tillögur bárust í keppnina frá íslenskum og erlendum arkitektarstofum. Fimm þeirra voru valdar áfram á síðara þrep keppninnar og voru veitt að lokum þrenn verðlaun að andvirði samtals átta milljóna króna.

Eins og fyrr segir var tillaga +Arkitekta í 1. sæti. Í 2. sæti var tillaga Tark Teiknistofunnar ehf. og í 3. sæti hafnaði tillaga Kurt og Pí.

Sýning á tillögum sem opnuð var í dag á byggingarreitnum sjálfum, á bak við húsin nr. 41-45 við Laugaveg, stendur áfram í allt sumar. Þá er gefið er út blað um samkeppnina; „Listaháskólinn við Laugaveg” þar sem allar tillögurnar eru kynntar, og sérstaklega fjallað um þær sem þróaðar voru áfram í síðara þrepi keppninnar.