Fjárfestingaþörf íslenskra lífeyrissjóða verður á bilinu 110 til 130 milljarðar árlega næstu tíu árin að mati Marinós Arnar Tryggvasonar forstöðumanns eignastýringar fagfjárfesta Arion banka. Þetta kom fram á fundi Arion um efnahagshorfur í höftum í morgun.

Samkvæmt þessu er uppsöfnuð fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna um 1.200 milljarðar króna næstu tíu árin. Til samanburðar, svo fólk átti sig á þessari stærð, kostaði bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði á milli 300 til 400 milljarða króna.

„Þetta er gríðarlega mikil fjárfestingarþörf sem þarf að fara eitthvað," sagði Marinó. Mikilvægt sé að þessari fjárfestingu sé beint í hagvaxtarskapandi verkefni því annars sé hætta á aukinni verðbólgu og jafnvel gengislækkun krónunnar.

"Eins og við vitum eru gjaldeyrishöft í gildi þannig að það er mjög ólíklegt að eitthvað af þessu fé fari í erlendar fjárfestingar," bætti Marinó við. Hann er svartsýnn á að krónan fái að fljóta á ný og gjaldeyrishöftum verði að fullu aflétt. Af þeim sökum sé horft til fjögurra til fimm ára þegar rætt sé um afnám hafta því það sé sá tími sem líklega taki að taka upp annan gjaldmiðil. Lífeyrissjóðirnir þurfi því að binda þetta fé í fjárfestingu í innlendu hagkerfi nema menn sjái fyrir sér endalok krónunnar.

Eignaverð hækkar

Í samantekt á erindi Marinós segir að á undanförnum árum hafi lítið framboð verið af fjárfestingakostum og fjárfestar hafa einkum fjárfest í ríkisskuldabréfum og innlánum. Ólíklegt sé að ríki og sveitarfélög muni þurfa (eða geti) gefið út gríðarlega mikið af skuldabréfum til þess að mæta fyrirsjáanlegri eftirspurn.

Marinó telur að líklegt sé að þessi munur á framboði og eftirspurn fjárfestingakosta geti gert það að verkum að langtímavextir lækki á næstu árum og  eignaverð muni hækka mikið. Og eins og áður segir þá er líklegt að verðbólgudraugurinn vakni á ný og verðbólga verði mikil ef hagvöxtur fylgi ekki með. Í umhverfi hafta sé mikilvægt að hagvöxtur verði nægur og leiði til nýrra fjárfestingartækifæra, því án hagvaxtar mun hækkandi eignaverði líklega fylgja verðbóga.