Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum fengu íslenskir stjórnmálaflokkar samtals úthlutað tæplega 7 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010 til 2022. Heildarframlag til stjórnmálaflokkanna hefur verið það sama árin 2020, 2021 og 2022, eða 728,2 milljónir króna. Áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að framlagið yrði það sama út árið 2024.

Aftur á móti lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í sumar, með samþykki ríkisstjórnarinnar, fram tillögur að ýmsum aðgerðum til að draga úr þenslu og verðbólgu í hagkerfinu fyrir fjárlaganefnd. Meðal þeirra tillagna var að lækka framlög til stjórnmálaflokka um 5%. Samkvæmt tillögunni mun framlag til stjórnmálaflokka því lækka úr 728,2 milljónum króna á ári niður í tæplega 691,8 milljónir króna. Meirihluti fjárlaganefndar samþykkti tillögur ráðherra.

Bjarni vill lækka framlagið

Vinna við fjárlög hvers árs fer fram í ráðuneyti Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eins og fyrr segir lagði Bjarni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar meðal annars fram tillögur að 5% lækkun framlaga til stjórnmálaflokka sem hluta af aðgerðum til að draga úr þenslu og verðbólgu. Hann tjáði svo þá skoðun sína dögunum í samtali við Vísi að draga ætti úr framlögum hins opinbera til stjórnmálaflokka. Sagði hann meðal annars skjóta skökku við að nýstofnaðir stjórnmálaflokkar búi yfir tugmilljóna sjóðum vegna framlaga úr ríkissjóði. „Mér finnst við hafa gengið þó nokkuð langt í beinum fjárhagslegum stuðningi við stjórnmálaflokka. Spegilmynd þess er aftur sú að við göngum nokkuð langt í að takmarka heimildir flokkanna til að fjármagna sig af eigin rammleik,“ sagði Bjarni í samtali við Vísi.

Eins og Bjarni benti á er stjórnmálaflokkum settar þröngar skorður við að fjármagna sig upp á eigin spýtur. Lögum samkvæmt mega flokkarnir aðeins taka við framlögum upp á 550 þúsund krónur frá lögráða einstaklingum á ári hverju. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálaflokks er þó heimilt að taka á móti framlögum umfram þetta frá einstaklingum, eða sem nemur að hámarki 100 þúsund krónum. Sömu reglur gilda um framlög lögaðila (t.d. fyrirtæki og félagasamtök) til stjórnmálaflokka.

Í samtali við Vísi sagði Bjarni jafnframt að mörk séu fyrir því hve langt eigi að ganga í að verja skattfé landsmanna til þess að halda úti stjórnmálastarfsemi. Að hans mati ætti að gefa stjórnmálaflokkum meira svigrúm til að afla sér fjár á eigin forsendum og um leið draga úr opinberum styrkjum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.